Vasabræður 2004
Forsíða
Dagbók
Fróðleiksmolar
Leiðarlýsing
Vasa-vísan

Vasaloppet.se
Á keppnisdag

(Tölvupóstfang bræðranna hefur verið aftengt)

Aðsend hvatningarvísa:
Eiðabræður einbeittir
eru menn sem þora.
Gangið hægt um gleðidyr
en gallharðir til Mora!
Össur Kristinsson

Fara á vef Vasahlaupsins

Viðbót: Lesið frásögn Hjörleifs af förinni.

Allir kláruðu með glans! Bræðurnir gengu 90 kílómetrana 7. mars og komust allir á leiðarenda þrátt fyrir mjög erfitt færi sem reyndist mörgum reynslumeiri keppendum ofviða.

Hermdu eftir bræðrunum! Á vefnum sportsim.com er hægt að sjá tölvuhermun af framgangi bræðranna í keppninni. Hlaupið 2004 ætti að vera sjálfgefið. Sláið inn nafnið "thorarinsson", smellið á "SEARCH" og veljið þá bræður sem þið viljið fylgjast með (því miður aðeins hægt að skoða 4 í einu). Smellið á "Play" þríhyrninginn og sjáið þá geysast af stað!

Lestu dagbókina!

Nokkrar nýjar myndir:


Bræðurnir í Mora 6. mars að kynna sér aðstæður í markinu, bjartsýnir á að komast alla leið daginn eftir.


Að morgni keppnisdags, léttur fiðringur í mannskapnum en menn tilbúnir að láta til sín taka.


Allir komnir af stað, tæplega 16 þúsund manns í brautinni. Fljótlega eftir ræsingu komust Hjörleifur og Sigurður að því að þeir voru aftastir, allra aftastir!


Bræður komnir í hús að kveldi, bera sig vel og búa sig undir að skála fyrir árangri framar vonum.


Líkt og vera ber með þjóðhetjur var tekið á móti Vasaförum með blómum í Leifsstöð.


Doddi fóstbróðurbróðir og Baldur fóstbróðir.


Fjölskyldur kappanna efndu til móttöku við heimkomu þeirra og var þeim meðal annars veitt sérstök vasaorða.


Sissý fararstjóri og fjallkona svipt jarðsambandi.

Keppnisdagurinn - þróun mála
7. mars.
Hér er safnað saman færslum sem skráðar voru á keppnisdaginn, í réttri röð.
Lestu meira

Nýjar myndir
6. mars.

Svíaríki dagur 3
6. mars.
Dagurinn hefur gengið stórátakalaust fyrir sig. Sérlega hefur verið gætt að því að Dóri hafi ekki séð um bíllykilinn, því ekki vildu menn að atburðir gærdagsins endurtækju sig. Byrjað var á því að versla það sem ekki var keypt í gær og Dóri prófaði nýju skíðin svona rétt til að athuga rennslið. Því næst var stormað til Sälen til að skoða rásmarkið. Þótti mönnum leiðin ansi drjúg og ekki laust við að glímuskjálftinn hafi aðeins aukist.
Lestu meira

Fóstbróðir!
6. mars.
Ekki verður ferðasaga okkar bræðra fullskrifuð nema minnst sé á Baldursþátt Ingvarssonar. Þessi dagfarsprúði, ungi piltur frá Akureyri hefur unnið þrekvirki í að koma okkur bræðrum á leiðarenda með þrotlausri skíðaáburðarvinnu. Er ljóst að ekki getum við kennt rennslinu um ef við ekki dröttumst til að klára þetta. Pilturinn hefur nú verið sjanghæjaður inn í ættina og sinnir nú ekki öðru kalli en "bróðir Baldur" eða "fóstbróðir". Við erum ekki frá því bræður að trísepinn á honum hafi stækkað við alla áburðarsköfunina þannig að ekki er ólíklegt að hann nái góðum tíma á morgun. Einhver lumbra og hitavella hefur að vísu hrjáð kappann en hann er óðum að ná sér og er eftir sem áður bjartasta von okkar bræðra um verðlaunasæti.
(Halldór)

Smellið hér á keppnisdaginn

Fimm bræður keppa!

Vasagangan er 90 km skíðaganga sem keppt hefur verið í undanfarin 80 ár og árlega fara þúsundir skíðagöngumanna á öllum aldri og af ýmsum þjóðernum ásamt fylgdarliði í pílagrímaferð til Vasa héraðs í Svíþjóð. Í ár er gert ráð fyrir um 15.500 keppendum og þar af verða fimm íslenskir bræður; Þórarinn, Stefán, Sigurður, Hjörleifur og Halldór Þórarinssynir sem hafa undanfarið ár stundað stífar æfingar.

Upphafið að þátttöku þeirra má rekja til ársins 2002 þegar Stefán og Halldór tóku þátt í Vasagöngunni í fyrsta sinn. Stefán lauk keppni á 10 klst. og 7 mínútum, en Halldór sem var nýstiginn upp úr veikindum og ekki í nægjanlega góðu formi gætti þess ekki að halda nægjanlegum hraða og féll úr keppni. Eftir ákveðinn tíma er tímatökusvæðum lokað og þeir keppendur sem fara of hægt yfir þurfa að hætta keppni.

Í fertugsafmæli Halldórs skoraði hann á bræður sína að taka með sér þátt í keppninni að ári liðnu. Ekki gátu þeir minni menn verið en litli bróðir og tóku áskoruninni, enda keppnismenn að upplagi. Síðan hafa þeir æft hver í sínu lagi við þrek- og styrktaræfingar, auk þess að fara í vel heppnaða æfingaferð til Akureyrar um miðjan janúar.

Tímataka í keppninni er sjálfvirk og á keppnisdaginn er hægt að smella á hnappinn hér fyrir ofan og fylgjast með stöðu bræðranna og áætluðum "lendingartíma".

Fróðleiksmolar  |  Leiðarlýsing

Stoltir bræður!
Þórarinn
ÞÓRARINN (60):
Arkitekt, grúskari og hörkutól.
Stefán
STEFÁN (56):
Læknir, yfirþjálfi og reynslubolti.
Sigurður
SIGURÐUR (55):
Kennari, meistarasmiður og baráttujaxl.
Hjörleifur
HJÖRLEIFUR (44):
Lyfjafræðingur, framkvæmdastjóri og besti bróðir.
Halldór
HALLDÓR (41):
Matvælaverkfræðingur, stjórnarformaður og áskorandi.