Vasabræður 2004
Forsíða
Dagbók
Fróðleiksmolar
Leiðarlýsing
Vasa-vísan

Vasaloppet.se
Á keppnisdag

(Tölvupóstfang bræðranna hefur verið aftengt)

Aðsend hvatningarvísa:
Eiðabræður einbeittir
eru menn sem þora.
Gangið hægt um gleðidyr
en gallharðir til Mora!
Össur Kristinsson

Fara á vef Vasahlaupsins

Efnisyfirlit dagbókarinnar!

Glóðvolgar fréttir!
7. mars.
Gangan hafin, eftirfarandi skeyti hafa borist frá Sissý leiðangursstjóra

"kl. 05:42: Stemmningin á leiðinni dulmögnuð undir fullu tungli, jógaæfingum Lalla og ættjarðarsöngvum. Fullkominn undirbúningur fyrir startið."

"kl. 08:04: Strákarnir lagðir í hann, glaðbeittir og ákveðnir í að komast í mark, bestu kveðjur Sissý"

Þegar vefstjóri rýnir í tímamælingu og stöðu mála kl. 10:45 að íslenskum tíma eru allir komnir í gegnum Mångsbodarna (sbr. leiðarlýsingu). Þeir raða sér nokkurn vegin í öfuga aldursröð með Halldór fyrstan. Þó hagnast Stefán á reynslunni og er næstur á eftir Halldóri.

Þeir eru í góðum málum varðandi snúruna ógnvænlegu, miðað við leiðarlýsingu Stefáns hefur Þórarinn þó verið tæpastur með um 22 mínútur upp á að hlaupa í Mångsbodarna. Bræðurnir eru því í góðum málum varðandi tempó og endist þrekið ættu þeir allir að skila sér í mark með glans.

Enn volgari fréttir!
7. mars.
Núna um kl. 11:40 að íslenskum tíma eru allir bræðurnir komnir í gegnum Risberg. Sigurður og Stefán sækja í sig veðrið og hafa farið fram úr hvor sínum bróðurnum, Stefán er því fyrstur, svo Halldór, Sigurður, Hjörleifur og Þórarinn tekur að sér að gæta þess að enginn verði eftir. Þórarinn er engu að síður í góðum málum klukkulega séð og hefur tekið síðasta legg með glans og er með svotil sama meðalhraða á síðasta legg og þeir Hjörleifur og Halldór - allt er sextugum fært!.

Baldur fósturbróðir geysist hins vegar fram sem vindur þjóti og er kominn til Oxberg (búinn með 2/3).

Vefstjóri tekur nú hlé á uppfærslum þar til seinnipartinn en bræðurnir taka engin hlé heldur geysast áfram.

Rjúkandi fréttir!
7. mars.
Þá er vefstjóri aftur orðinn ánetjaður og klukkan nálgast 17 að íslenskum tíma. Allir eru bræðurnir á góðu skriði, Halldór aftur búinn að koma sér í forystu og spáir tímatakan honum í mark 17:24 (að ísl. tíma), Stefáni er spáð í mark 25 mínútum síðar. Sigurður, Hjörleifur og Þórarinn eru væntanlegir um 18:30 að íslenskum tíma og við síðustu mælingu voru ekki nema 18 keppendur á milli Hjörleifs og Þórarins. Sigurður 200 sætum á undan þeim. En það verður eflaust hart barist milli þeirra bræðra um sæti á lokasprettinum.

Baldur kláraði á 6:44 og ef vefstjóri þekkir þá bræður rétt munu þeir hreykja sér af hans frammistöðu við hvert tækifæri.

Allir komnir í mark!
7. mars.
Nú er ljóst að allir bræðurnir eru komnir í mark og hafa staðist þessa þolraun með sóma. Lokatímar eru sem hér segir:

 Lokatími Sæti
Halldór10:21:20 12.388
Stefán10:42:23 12.790
Sigurður10:59:45 13.078
Hjörleifur11:21:25 13.269
Þórarinn11:31:57 13.340

Glæsilegt!

Nýjar myndir
6. mars.

Svíaríki dagur 3
6. mars.
Dagurinn hefur gengið stórátakalaust fyrir sig. Sérlega hefur verið gætt að því að Dóri hafi ekki séð um bíllykilinn, því ekki vildu menn að atburðir gærdagsins endurtækju sig. Byrjað var á því að versla það sem ekki var keypt í gær og Dóri prófaði nýju skíðin svona rétt til að athuga rennslið. Því næst var stormað til Sälen til að skoða rásmarkið. Þótti mönnum leiðin ansi drjúg og ekki laust við að glímuskjálftinn hafi aðeins aukist.
Lestu meira

Fóstbróðir!
6. mars.
Ekki verður ferðasaga okkar bræðra fullskrifuð nema minnst sé á Baldursþátt Ingvarssonar. Þessi dagfarsprúði, ungi piltur frá Akureyri hefur unnið þrekvirki í að koma okkur bræðrum á leiðarenda með þrotlausri skíðaáburðarvinnu. Er ljóst að ekki getum við kennt rennslinu um ef við ekki dröttumst til að klára þetta. Pilturinn hefur nú verið sjanghæjaður inn í ættina og sinnir nú ekki öðru kalli en "bróðir Baldur" eða "fóstbróðir". Við erum ekki frá því bræður að trísepinn á honum hafi stækkað við alla áburðarsköfunina þannig að ekki er ólíklegt að hann nái góðum tíma á morgun. Einhver lumbra og hitavella hefur að vísu hrjáð kappann en hann er óðum að ná sér og er eftir sem áður bjartasta von okkar bræðra um verðlaunasæti.
(Halldór)

Svíaríki dagur 2
5. mars.
Það var ýmislegt á döfinni hjá hópnum, sumt tókst annað ekki. Menn vöknuðu missnemma og fór það gjarnan eftir aldri hvenær skriðið var fram í morgunmatinn. Voru elstu menn orðnir svangir aftur þegar síðasta holl lét sjá sig. Síðan var ekkert hik á mannskapnum og var stormað í bæinn í verslunarferð. Þetta hefði ekki komið undirritaðri á óvart ef hópurinn hefði verið kvenkyns. En það var fróðlegt að fylgjast með strákunum, því þarna var eins og litlum krökkum hefði verið sleppt lausum í nammilandi, þeir óðu um allt mátuðu, prófuðu, toguðu í tuskur og keyptu sér meira eða minna alfatnað fyrir gönguna miklu.
Lestu meira

Svíaríki dagur 1
4. mars.
Það var glaðbeyttur hópur sem mætti í Keflavík í morgunsárið. Stemmningin góð og hugur í mönnum. Eftir þægilegt flug til Stokkhólms tók við um 5 tíma akstur með matarstoppi. Hópurinn kom til Mora um klukkan sex í blíðskaparveðri, sólin að setjast bak við hæðirnar og birtan falleg á vötnunum. Eftir kaffihressingu hjá gestgjafa okkar var stefnan tekin á brautina í Mora. Þar var tekinn léttur hringur á yndislegu stjörnubjörtu kvöldi og logni, sporaskiptin og innkoman í markið æft. Nú sitja menn yfir hnetum og rúsínum og skipuleggja innkaup á fatnaði á morgun ásamt ferð í Sälen til að skoða aðstæður í startinu.
Bestu kveðjur til allra
(Sissý)

Lokafundur fyrir brottför!
2. mars.
Í gær var haldinn lokafundur fyrir brottför (sem verður á fimmtudagsmorgun).
Lestu meira

Vaxandi glímuskjálftavirkni!
24. febrúar.
Nú þegar tæpar tvær vikur eru í gönguna miklu er ákveðinn glímuskjálfti kominn í menn. Nú er þetta að skella á og ljóst að hörkupúl er framundan. Í rigningunni og snjóleysinu sem hefur hrjáð Sunnlendinga undanfarið hafa þeir bræður gripið til þess ráðs að stunda kraftgöngur. Síðastliðinn sunnudag var genginn hringur sem gps-inn mældi um 21 km. Gangan tók um 3 tíma og voru menn nokkuð brattir á eftir, mismikið þó.
Lestu meira

Gígamyndun í Bláfjöllum!
8. febrúar.
Þær fregnir voru að berast að furðulegar gígamyndanir hafa myndast á undanförnum sunnudögum í skíðagöngubrautinni í Bláfjöllum. Hafa mönnum þótt þetta undarleg fyrirbrigði og einnig hafa borist kvartanir frá skíðagöngufólki til skálavarða á svæðinu. Svo miklar skemmdir hafa orðið að starfsmenn svæðisins fóru með leynd til að athuga málið.
Lestu meira

Umbylting bræðranna!
Í upphafi Þorra
Þetta byrjaði allt mjög saklaust. Það hafði borist í tal að tveir bræðranna hefðu tekið þátt í því þrekvirki að keppa í 90 km langri skíðagöngu í Svíþjóð árið 2002. Annar kláraði en ekki hinn. Þessi umræða átti sér stað í einhverju jólaboðanna í fyrra, svona á milli aðalréttarins og eftirréttarins eða hvort það var eftir annað (eða jafnvel þriðja!) rauðvínsglasið? Hjólin fóru að snúast hratt eins og oft vill verða þegar þeir bræður eiga í hlut og sitja að spjalli. Mikið var rætt að ómögulegt væri nú fyrir litla bróður að hafa ekki lokið göngunni, aðallega þótti andlegi þátturinn krítískur. Það yrði að koma í veg fyrir andlega kreppu, sei, sei, jú.
Lestu meira

Æfingaferð til Akureyrar!
19. janúar.
Það var eins og veðurguðirnir hefðu virkilega hlustað á bænir okkar um miðjan janúar. Við höfðum fylgst grannt með veðri og snjóalögum fyrir norðan í nokkurn tíma og var ljóst að okkar vegna mátti alveg bæta aðeins í. Það var eins og við manninn mælt, um miðja vikuna skall á stórhríð og kolvitlaust veður og snjónum kyngdi niður í það miklum mæli að meira að segja norðanmönnum fannst nóg um.
Lestu meira